Tras
Tras er skráningarlisti til notkunar fyrir leikskólakennara til að fylgjast með máltöku tveggja til fimm ára barna.
TRAS skráningarlistinn er ekki málþroskapróf heldur athugun í skráningarformi á málhegðun og málþróun hjá börnum á ákveðnum aldri.
Skráningin hefst þegar barn er rúmlega tveggja ára og lýkur við fimm ára aldur. Tvisvar á ári, með sex mánaða millibili skráir leikskólakennari á skráningarblöðin svör við ákveðnum spurningum um málþroska barnanna. Hvert barn á sitt skráningarblað sem fylgir því í gegnum leikskólann. Ekki er um eiginlega fyrirlögn að ræða heldur leitar sá leikskólakennari sem best þekkir barnið svara við spurningunum á skráningarlistanum með því að fylgjast með barninu í leik og starfi.Spurningarnar á TRAS skráningarlistanum flokkast undir þrjú færnisvið sem hvert um sig á ákveðinn lit á skráningarblaðinu.
1. Samleikur, tjáskipti/ samskipti og athygli/einbeiting.
2. Málskilningur og málmeðvitund.
3. Framburður, orðaforði og setningamyndun.
Markmið með TRAS skráningarlistanum er:
· Að unnt sé að grípa inn í með skjóta og markvissa aðstoð ef grunur vaknar um frávik.
· Að foreldrar og aðrir fullorðnir í umhverfi barns fái ráðgjöf og leiðbeiningar. Það getur dregið úr áhyggjum og gefið innsýn í hvernig best sé að hjálpa barninu.
· Að reynt sé að fyrirbyggja að önnur vandamál komi upp sem tengjast því að barn hafi ekki fengið aðstoð vegna málþroskafrávika.
Hljóm2
Hljóm-2 er greiningartæki í leikjaformi sem kannar hljóðkerfis- og málvitund elstu barna í leikskólanum í því skyni að greina þau börn sem eru í áhættu fyrir lestrarerfiðleikum.
HLJÓM-2 er eingöngu ætlað til notkunar fyrir leikskólakennara/fagfólk sem vinnur með elstu börnum leikskólans.
Hljóm nær yfir aldursskiptinguna 4 ára, 9 mán og 16 daga til 6 ára, 1 mán og 15 daga.
Hljóm-2 fylgja mjög nákvæmar útskýringar á notkun og hvaða orð eru notuð í fyrirlögninni og börnin fá góðar útskýringar. Það er lagt fyrir í byrjun hauststarfs í september/október. Þegar þær niðurstöður liggja fyrir er gert ráð fyrir að leikskólinn geri viðeigandi ráðstafanir samkvæmt handbók, (vísi þeim börnum áfram til nánari greiningar sem þurfa á því að halda). Jafnframt er gert ráð fyrir að unnið sé markvisst með börnin í leik og starfi og í samvinnu við foreldra með að örva hljóð- og málvitund þeirra. Þegar viðeigandi úrræða hefur verið leitað og unnið hefur verið markvisst með börnin eftir haustfyrirlögnina í 10 -12 vikur er fyrirlögn endurtekin í janúar á nýju ári hjá þeim börnum sem sýndu slaka færni að hausti.
Í Hljóm eru lögð fyrir 7 atriði sem öll gefa vísbendingar um ákveðna áhættu eða ekki. Þau skiptast í eftirfarandi flokka:
- Rím
- Samstöfur
- Samsett orð
- Hljóðgreining
- Margræð orð
- Orðhlutaeyðing
- Hljóðtenging