Í boði er hefðbundinn heimilismatur með úthugsuðu næringargildi. Á Klömbrum kaupum við aðsendan hádegismatmat og kaffitíma frá Skólamat sem er svo undirbúinn og framreiddur í leikskólanum. Athugið að lýsi er ekki gefið í leikskólanum.
Morgunverður: Á mánudögum, þriðjudögum og fimmtudögum er hafragrautur í boði. Á miðvikudögum fá börnin Cheerios og Kornflex með mjólk. Á föstudögum fá börnin ristað brauð með osti og smjöri.
Boðið er upp á morgunverð frá kl. 8.30 til kl. 9.00. Þá er best að allir séu komnir í hús því þá hefst hinn eiginlegi skóladagur. Ferskir ávextir eru alltaf í boði með morgunmatnum. Ef barn er með fæðuofnæmi er komið til móts við þarfir þess. Mælst er til þess að foreldrar skili inn læknisvottorði um ofnæmi.
Á öllum deildum er föst ávaxtastund á morgnanna.
Hádegismatur: Matseðill Skólamats er undir flipanum matseðill á heimasíðu Skólamats.
Hádegismatur byrjar 11:00. Yngstu börnin byrja örlítið fyrr.
Síðdegishressing: Nýbakað brauð/kex/búst, hreint smjör, álegg og grænmeti og/eða ávextir. Síðdegishressingin byrjar kl 14:00.
Matarmenning Klambra
Veturinn 2015- 2016 hófum við á Klömbrum undirbúning að breytingu á matartímanum í svokallaða Matstofu. Við tókum leikskólann Aðalþing okkur til fyrirmyndar. Aðalþing hefur verið með Matstofu fyrirkomulagið síðan 2012 við góða raun. Hugmyndin hjá Aðalþingi var að brjóta upp hinar hefðbundnu nálganir í matmálstímum leikskóla sem byggjast meðal annars á því að hvert barn situr í sama sæti og situr þar til öll börnin eru búin að borða. Þessi bið getur reynst börnum oft löng og erfið. Aðalþing vildi skapa betri matarmenningu fyrir börnin svo að upplifun barnanna myndi vera jákvæð.
Áhersla Aðalþings var:
- að börn fengju val um hvar þau vildu sitja
- að vinir vilji/fái að sitja saman í matmálstímum
- að börnum líði vel í matmálstímum
- að tekið sé tillit til þess að einstaklingar séu mis-lengi að borða.
- að taka tillit til fjölbreytileika.
- að börnin læri að þekkja sitt eigið magamál.
- að fá álit barnanna á hráefni og máltíðum.
Þegar börnin fá val um hvar þau vilja sitja þá ýtir það undir valdeflingu þeirra sem byggist á að hafa frelsi til athafna, vald til að gera og vald til vera. Þannig er einblínt á styrk þeirra í stað veikleika. Með valdeflingu er átt við að einstaklingarnir geri sér grein fyrir hæfni sinni og rétti til þess að bregðast við og hafa áhrif á kringumstæður sem þeir eru í og læri að nýta sér þessa hæfni. Til að mynda hæfni þeirra til að velja sér mat, skammta sér sjálf, velja hvar þau sitja, borða sjálf, meta hve langan tíma þau þurfa til að borða og ganga frá eftir sig. Valdefling eyðir tilfinningu um vanmátt, hjálparleysi og vonleysi.
Hlaðborð í matstofu stuðlar að valdeflandi aðstæðum fyrir börn ef þeim gefst tækifæri til að velja sjálf, hvað af hráefninu þau vilja borða. Barnið setur saman sína eigin máltíð á diskinn sinn. Það eru meiri líkur á því að barnið borði vel ef það velur matinn sjálft og er treyst í verkið. Með þessu lærir barnið að hlusta eftir eigin magamáli og bera virðingu fyrir mat. Hlaðborð í matstofu kennir börnum líka að bíða eftir að röðin komi að þeim og að eiga samræður við skólafélagana undir hollri og ljúffengri máltíð.