Hagnýtar upplýsingar

 • Aðlögun

  Í upphafi leikskólagöngu þarf að gefa barninu góðan tíma til að aðlagast leikskólanum.
  (Aðalnámskrá leikskóla 2011, Menntamálaráðuneytið)

  Að byrja í leikskóla er ný reynsla fyrir barnið og foreldra þess. Allt er framandi og ókunnugt og því er mikilvægt að vel sé staðið að aðlögun. Hvernig til tekst í byrjun getur haft áhrif á líðan barnsins seinna í leikskólanum.

  Á meðan á aðlöguninni stendur er mikilvægt að foreldrar gefi sér tíma til að kynnast starfsfólki leikskólans og því starfi sem þar fer fram. Einnig að starfsfólk kynnist foreldrum og að foreldrar kynnist innbyrðis. Í aðlögun er lagður grunnur að góðu foreldrasamstarfi.

  Aðlögun í Klömbrum byggist á þeirri hugmynd að börnin og foreldrarnir séu að læra að vera í leikskólanum og nái að kynnast honum saman. Aðlögunin fer þannig fram að foreldrar eru með börnum sínum aðlögunartímann í leikskólanum í þrjá daga og taka fullan þátt í starfseminni á meðan. Þetta form byggist m.a. á þeirri trú að foreldrar smiti eigin öryggiskennd, forvitni og spennu yfir þessum nýju aðstæðum til barna sinna. Með því að foreldrar taki fullan þátt frá fyrsta degi öðlast þeir öryggi yfir dagsskipulaginu og því sem á sér stað í leikskólanum. Þeir kynnast ekki bara starfsfólki, heldur öðrum börnum, foreldrum og því sem á sér stað í leikskólanum. 

  Markmiðið er að skapa trúnað og traust á milli foreldra og starfsfólks sem er grundvöllur fyrir áframhaldandi foreldrasamstarfi.

  Nauðsynlegt er að hafa í huga að þó að aðlögunin miðist við þrjá daga þá er hver einstaklingur sérstakur og sumir gætu þurft lengri tíma með foreldrum eða styttri fyrstu daga að lokinni aðlögun með foreldrum. 

  Fyrsti dagur: kl. 9:00-11:45 (borða hádegismat).

  Annar dagur: kl. 9:00-14:40 (hádegismatur + hvíld + kaffitími).

  Þriðji dagur: kl:8/9-15:30 (morgunmatur + hádegismatur + kaffitími).

  Fjórði dagur: Foreldri kveður fljótlega og barnið heldur á vit ævintýranna :) 

  Lesa ··>

 • Afmæli

  Afmælisdagur er stór dagur í lífi barnsins og haldið er upp á hann í leikskólanum. Afmælissöngurinn er sunginn og afmælisbarnið er í brennidepli þennan dag. Á vinafundi á föstudögum eru afmælisbörn vikunnar kölluð upp, þau fá skikkju og allir syngja afmælissönginn. 

  Það á ekki að setja boðskort í afmælisveislur í hólf barnanna, sé ætlunin ekki að bjóða öllum á deildinni. Þá er betra að fá símanúmer eða netföng foreldra viðkomandi barna hjá deildarstjóra og bjóða í afmælið símleiðis eða með tölvupósti. 

   

  Lesa ··>

 • Fatnaður

  Mikilvægt er að fatnaður barnanna sé þægilegur og að börn séu klædd eftir veðri. Veður er rysjótt á Íslandi og þess vegna er best að vera við öllu búin. 
  Nauðsynlegt er að barnið hafi með sér aukafatnað og mikilvægt er að allt sé merkt.
  Í leikskólanum vinnum við með ýmis efni, s.s. liti, lím og málningu og gott er að foreldrar séu meðvitaðir um að þetta getur farið í föt barnanna.  
  Þau börn sem nota bleyju koma með þær að heiman.

  Á hillu fyrir ofan hólf barnsins í fataherberginu er kassi merktur því.  Kassann köllum við Hlaðgerði og er foreldrum er bent á að yfirfara fatnað bæði í Hlaðgerði og hólfi fyrir hvern dag. Við viljum einnig vekja athygli á því að tæma á hólf og snaga í lok dags á föstudögum.

  Eftirfarandi á alltaf að vera í Hlaðgerði.

  Útiföt og aukaföt:

  Yfir sumartímann: Þunn húfa, peysa, vettlingar (pollaföt og stígvél í hólfi). 

  Yfir vetrartímann: Húfa, tvennir vettlingar, hlýir ullarsokkar og þykk peysa (kuldagalli, pollaföt, stígvél og kuldaskór í hólfi). 

  MERKJA SKAL ÖLL FÖT BARNANNA VEL, LÍKA STÍGVÉL OG SKÓ.

  Þeim tilmælum er beint til foreldra að setja í hólfið á morgnana það sem þeir telja að barnið ætti að nota þann dag og hengja þau föt upp. Með þessu móti eykst sjálfstæði barnanna því þá geta geta þau klætt sig sjálf án þess að þurfa að biðja starfsfólk um að ná í fötin í kassann sem er hátt uppi á hillu. Þetta á sérstaklega við um eldri börnin.

   

  Í fatakörfunni inni á deild þurfa að vera: 

  Nærbuxur, sokkabuxur, sokkar, buxur, nærbolur, langermabolur.

   

  Lesa ··>

 • Hve langt er sumarfrí barna?

  Sumarlokun er 4 vikur samfellt oftast í júlí.

  Lesa ··>

 • Leikskóladagatalið Verðandi

  Afrit_af_Leikskoladagatal-2018-2019Aa.pdf

  Hér er hægt að skoða leikskóladagatalið Verðandi fyrir skólaárið 2018 - 2019

  Lesa ··>

 • Lyfjagjöf á leikskólatíma

  Ef börn í leikskóla þurfa á lyfjum að halda ber að haga lyfjagjöf þannig að lyfin séu gefin heima en ekki í leikskólanum. Undantekning á þessu eru astmalyf.

  Lesa ··>

 • Opnunartími leikskólans

  Leikskólinn er opinn alla virka daga frá kl 07:45 til kl. 16:45.

  Lesa ··>

 • Slys á börnum

  Ef barn veikist eða verður fyrir slysi höfum við samband við foreldra.

  Náist ekki í þá eða ef um alvarlegt slys er að ræða er farið með barnið beint á slysadeild eða heilsugæslustöð.
  Öll slys sem verða á leikskólanum eru skráð á tiltekið eyðublað sem er geymt.

  Lesa ··>

 • Starfsáætlun

  Hér er hægt að lesa starfsáætlun Klambra fyrir skólaárið 2017-2018

  Lesa ··>

Prenta | Netfang