Velkomin á Klambra

Article Index

Um leikskólann

Leikskólinn Klambrar hóf starfssemi í maí 2002. Klambrar er fjögurra deilda leikskóli þar sem eru 84 börn samtímis og stöðugildi eru um 18. Deildir leikskólans eru fjórar og heita Hlíð, Holt, Tún og Teigur. Börnin í Klömbrum eru á aldrinu frá eins árs til 6 ára.

Í Klömbrum leggjum við okkur fram um að skapa þannig andrúmsloft að það sé gott, gaman og menntandi að vera í leikskólanum hvort sem maður er barn eða fullorðinn.

Rekstraraðili er Reykjavíkurborg. Leikskólastjóri er Jónína Lárusdóttir og aðstoðarleikskólastjóri er Þórunn Júlíusdóttir.

skifurit-001


Staðsetning

Einu sinni hét Miklatún Klambratún vegna þess að þar var bóndabær sem hét Klambrar. Við erum ekki alveg á sama stað en nógu nálægt til þess að ferðast um og leika okkur á túninu. Þið finnið okkur með því að líta eftir turnunum á Háteigskirkju og Sjómannaskólanum. Við erum á jarðhæð stúdentagarðanna austan kirkju og sunnan skóla. Þá þekkið þið okkur á skiltunum heimagerðu við inngangana.

Leikskólinn er til húsa á jarðhæð stúdentagarða BN (Byggingafélag námsmanna) við Háteigsveg 33 í Reykjavík.


Leiðarljós leikskólans: Klambraandinn

Starfsgleði og jákvæðni

Við sköpum börnunum gleðiríkt umhverfi þar sem þau finna starfsgleði sína í leiknum. Kennarar skuldbinda sig til þess að vinna að því af heilum hug að björtu hliðarnar ráði ríkjum til þess að nám barnanna verði þroskandi, gefandi og skemmtilegt.

Gagnrýnin og skapandi hugsun

Við bjóðum börnunum upp á leikefni sem gefur þeim tækifæri til þess að njóta meðfæddra hæfileika sinna til þess að skapa leikinn sjálf. Því er lítið um hefðbundin leikföng sem fela í sér fyrirframgefnar lausnir. 

Öryggi og traust

Umhverfi leikskólans er skapað þannig að börnin finni til öryggis. Einstaklingurinn fær að njóta sín innan hópsins og kennarinn fylgist grannt með þörfum og líðan hvers barns. Gagnkvæm virðing og traust ríkir á milli heimilis og skóla.